30.4.2010 | 02:11
Mismunun innan kirkjunnar er varla Guði þóknanleg....
Það er mesta skömm að kirkja sem styrkt er af ríkinu skuli mismuna fólki með þessum hætti. Ég kaupi ekki að Biblían segi samkynhneigð synd. Samkvæmt Biblíunni er líka synd að skilja, giftast aftur, halda ekki hvíldardaginn heilagan og ýmislegt annað sem við gerum á 21. öld. Prestar samþykkja að gifta fólk í annað og þriðja sinn þó það megi ekki samkvæmt hinni helgu bók. Einnig samþykkja prestar að veita fólki skilnað þó skýrt standi í umræddri bók að það sem hefur verið sameinað fyrir Guðs augum skuli ekki sundurskilja.
Ég borga minn skatt til Þjóðkirkjunnar en samt leyfir hún mér ekki að giftast kærustunni minni. Hinir háheilögu prestar segja ást okkar synd! Þekki mörg hjónabönd gagnkynhneigðra sem byggist á ofbeldi og hatri. Eflaust eru til þannig sambönd samkynhneigðra líka og segir kannski til um að kynhneigð skiptir ekki máli hvað varðar ást eða ekki ást.
Kannski sýna orð Biblíunnar, að karlmaður skuli ekki leggjast með öðrum karlmanni sem kona væri, hversu fáránlegt þessi afstaða er. Því það má skilja í orðunum að konur megi leggjast með öðrum konum, bara ekki karlmenn með öðrum karlmönnum. Samkvæmt því eru lesbíur leyfilegar, ekki hommar! Það hljóta allir að sjá hversu fáránlegt þetta er!
Ég hef ákveðið að segja mig úr Þjóðkirkjunni og hvet alla samkynhneigða til að gera slíkt hið sama. Ekki leggja peningana okkar í þessa mismunun!
Það er tímabært að aðskilja ríki og kirkju.....
Tóku ekki afstöðu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Tek undir þetta hjá þér af heilum hug, gagnkynhneigðarhyggjan virðist vera ráðandi afl með biskup í fararbroddi. Fólk verður að vera sátt við þær stofnanir sem það tilheyrir.
Jóhanna Magnúsdóttir, 30.4.2010 kl. 06:40
Sæl vertu Adda. Mig langar aðeins að svara ýmsu hjá þér með hliðsjón af því að ég er kristinn og trúi á Biblíuna. Ég vona að þetta svari einhverju. Ég tek þó fram að ég tilheyri ekki þjóðkirkjunni.
Það er alveg rétt hjá þér að Biblían segir hvergi að samkynhneigð sé synd. Það er hins vegar aðeins talað um hjónaband á milli karls og konu. Svo er talað um að kynlíf á milli 'karls og karls' og 'konu og konu' sé ekki Guðs vilji.
Það er rétt hjá þér að skilnaður er ekki Guðs vilji. Hann vill að fólk leysi mál sín á annan hátt. Hann segir þó að ef um framhjáhald sé að ræða þá megi fara fram á skilnað. Svo segir hann líka að ef einhver vill endilega skilja við þig þá verðurðu að leyfa honum það enda er ekki hægt að neyða neinn til að vera giftur þér. Í þessum tilfellum má auðvitað gifta sig aftur. Hvernig á presturinn að vita hver er ástæða skilnaðar. Á hann að fara að rannsaka það? Auðvitað ekki. Þannig er það alveg sjálfsagt að hann gifti fólk sem hefur skilið, enda er hann ekki dómari, heldur verður fólkið sjálft að dæma.
Það er reyndar misjafn skilningur meðal kristins fólks um það hvort ennþá eigi að halda hvíldardag, og þá hvort það eigi að vera laugardagur eða annar dagur. Ég ætla nú ekki að þreyta þig með þeim guðfræðilegum pælingum. En það er ástæða fyrir því að sumir kristnir halda hann og aðrir ekki. En það er heldur ekki prestanna að banna fólki slíkt eða neyða þá til þess. Enda færi nú allt í bál og brand ef slíkt yrði reynt.
Ég þekki að vísu ekki almennilega þessar reglur en ég get ekki ímyndað mér að prestar komi nálægt því þegar fólk er að skilja. Er það ekki bara sýslumaður eða eitthvað álíka? Annars bendi ég á svarið fyrir ofan við þessu.
Þjóðkirkjan bannar engum neitt slíkt. Ef löggjafinn leyfir það þá getur þú allavega gift þig hjá hinu opinbera. Mér finnst bara hræðilegt ef það á að neyða prest, sem trúir því einlæglega að eitthvað sé ekki Guðs vilji, að fara gegn sannfæringu sinni og gifta og blessa hjónaband sem Guðinn sem hann hefur ákveðið að þjóna allt sitt líf, hefur sagt að sé ekki hans vilji.
Já, það er miður að sumir prestar segi ást samkynhneigðra vera synd. Ég verð reyndar að viðurkenna að ég hef misskilið Biblíuna stundum og sagt það líka. En ég hef komist að því að Biblían segir ekkert um ást samkynhneigðra. Enda talar hún til dæmis um Davíð konung sem elskaði Jónatan, son Sáls konungs, alveg einstaklega mikið. Ekki það að ég ætli að dæma um það hvort Davíð hafi verið samkynheigður eða ekki. En það er talað mikið um þeirra ást á hvor öðrum.
Það er semsagt hvergi talað um það að karl megi ekki elska karl svakalega mikið og jafnvel búa með honum og að það séu svipuð lagaleg réttindi hjá þeim og eru hjá hjónum. Né heldur konu.
Það sem er hins vegar talað um er kynlíf þeirra. Það er talað um að kynlíf sé fyrir karl og konu. Nú veit ég ekkert um það hvernig samkynhneigðir taka þeim fréttum. Hvort einhverjum þeirra geti verið létt að ástin sjálf sé ekki synd, eða hvort einhverjir séu reiðir yfir því að kynlíf þeirra sé kallað synd. Eflaust er það misjafnt. Sumum er eflaust alveg sama. Ég veit bara að ég er kristinn og trúi Biblíunni. Ég trúi því að það sem hún segir sé rétt. Ég veit að ég hef engan rétt til þess að neyða einhvern annan til þess að trúa því sem ég trúi, en ég hef rétt á að segja öðrum frá hverju ég trúi. Sem kristnum manni ber mér að elska alla, sama hvaða synd er 'þeirra synd' (því ég veit að allir hafa einhverja synd í sínu lífi). Þar af leiðandi ber mér að elska samkynhneigða og það geri ég, enda margt alveg yndislegt fólk. En kristin kirkja getur varla verið neydd til þess að gera eitthvað sem er þvert á það sem hún boðar og þvert á trúarbók hennar.
Það reyndar leiðir að því að það er að sjálfsögðu ekki gott að einhver kirkja sé ríkiskirkja. En það er annað mál, sem löggjafinn þarf að ákveða.
Það er reyndar ekki rétt. Sjá Rómverjabréfið 1.26-27. Þar er líka talað um konur.
Sammála :)
Ég veit ekki hvort það komi nógu skýrt fram hver afstaða mín er í þessu máli. En í stuttu máli þá er það mín sannfæring að hommar og lesbíur megi bara alveg endilega elska hvort annað. Þau megi ganga í einhverskonar lagalegt band og fá presta til þess að blessa það samband, án þess þó að þeir blessi kynlífið eitthvað sérstaklega. Biblíulega þá er það ekki hjónaband, þar sem það er frátekið fyrir karla og konur. En það mætti vera hvaða nafn sem er yfir samband karls og karls og konu og konu (reyndar alveg eðlilegt að það sé annað nafn þegar þetta er greinilega ekki alveg sami hluturinn, jafnvel sér nafn fyrir lesbíur og sér fyrir homma). Segjum að lesbíur vildu kalla það kvennband (fyrsta sem mér datt í hug :)
Konur sem vildu ganga í kvennband myndu þá gera það, þess vegna í kirkju og fá blessun yfir ást sína frá presti, og yrðu lagalega tengd með öllum sömu réttindum og skyldum og hjón.
Kirkjan myndi ekki blessa kynlífið, enda gerir hún það heldur ekki hjá gagnkynhneigðum... það væri bara skrítið :)
Það væri svo undir "kvennbands" konum komið (ekki nógu þjált orð greinilega :)
hvort þær myndu stunda kynlíf. Ef þær hafa sama skilning og ég á orði Guðs þá myndu þær ekki gera það. En hafi þær ekki þann skilning þá gera þær það sem þær vilja.
jæja... ætla ekki að hafa þetta lengra í bili :)
Guð blessi þig.
Andri (IP-tala skráð) 1.5.2010 kl. 16:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.